top of page
Search
Writer's pictureKristrún Anna

Á róðrarbretti í lífsins ólgu sjór

Ég á mér nýtt áhugamál - brettaróður

Þetta nýfundna áhugamál mitt er á svo magnaðan hátt táknrænt fyrir allt sem ég geri í störfunum mínum og stend fyrir sjálf sem manneskja. Sjórinn er nefnilega eins og lífið (og vinnan) - stundum er hann spegilsléttur, stundum finnum við ólguna undir yfirborðinu og stundum koma öllum að óvörum, meiri straumar og vindur sem krefjast mikillar aðlögunarhæfni og sveigjanleika (agility) frá okkur. Hafandi alist upp á landi þar sem oft eru 4 árstíðir á einum degi vitum við öll að veðrið (eins og lífið) er síbreytilegt og algjörlega fyrir utan það sem við höfum stjórn á - alveg sama hversu oft við lesum veðurspánna, þá stjórnum við ekki framtíðinni. Við blómstrum misvel í þessum sífellu breytingum.

Þeir sem eiga hvað auðveldast með þetta, búa yfir færni í að lesa umhverfi, taka eftir breytingum, sjá nýja möguleika og ákveða þann möguleika sem líklegastur er til árangurs út frá þeim forsendum sem eru akkúrat núna. En þeir láta ekki þar við setið, þeir prófa sig áfram, rýna/skoða hvernig gengur og hvernig breytingar í umhverfinu þróast, draga lærdóm og endurmeta stöðuna …aftur og aftur og aftur þangað til að þeir komast heilir í höfn. Það sem einkennir oft þetta fólk er það traust sem það ber til sjálfs síns (og hér erum við ekki að tala um hroka). Þessu trausti væri hægt að lýsa svona: "Ég treysti mér til að takast á við það sem kemur - hvað sem það verður - og biðja um aðstoð ef þetta verður mér ofviða". Þetta traust gerir það að verkum að hægt er að nýta alla orkuna í það sem hægt er að stjórna (róa í land & halda sér á brettinu) og sleppa því að leka orkunni í áhyggjur, jórturhugsanir og allskonar "hvað ef..." hugsanir. Róðurinn/lífið/vinnan er nefnilega (á köflum) alveg nógu erfiður þó að við séum ekki að gera það enn erfiðara fyrir okkur.

Góðu fréttirnar fyrir þá sem ekki blómstra í þessum sífelldu breytingum eru að það er hægt að þjálfa þessa færni upp og ef þú ert tilbúin að stíga nokkur skref út fyrir þægindarammann þá er sú þjálfun miklu minna mál en við höldum.


Þannig að hér kemur ein 'létt' spurning inn í sumarið:

Hvað vantar þig til að treysta þér inn í hvaða aðstæður sem er?

Og þegar búið er að grafa upp svörin - finndu pínulitlu skrefin í átt að því og nýttu sumarið í að gera tilraunir




Comments


bottom of page