top of page
Search
Writer's pictureKristrún Anna

Að hlusta til að skilja - ekki til að svara

Updated: Jul 5, 2022

Eitt það merkilegasta sem ég uppgötvaði í markþjálfunarnáminu mínu var hversu léleg ég var að hlusta til að skilja fólk. Eitthvað sem ég hafði talið mig MJÖG góða í. Þegar ég fór að fylgjast með hvað gerðist á meðan ég var að hlusta kom ýmislegt í ljós:

  • Ég átti mjög hávært ráðaskrímsli sem langaði svo mikið að koma sínum ráðleggingum að. Ráðaskrímsli sem fannst það oft eiga lausnina á lífsgátunni. Ég vissi samt að ég sjálf fór örsjaldan eftir þeim ráðum sem ég fékk frá öðrum. En mín ráð höfðu virkað svo vel fyrir mig - þau hlutu að virka líka fyrir aðra.

  • Ég sá líka að athyglin mín var ekki alltaf á að hlusta - heldur var hún upptekin við að finna svör og reyna að koma þeim að - eða móta næstu spurningu - eða hugsa hvað ætti að vera í kvöldmatinn....

Ég veit ekki hvort þú tengir við þetta?


Ég fór að æfa mig markvisst í að hlusta til að skilja.

  • Ég æfði mig í að setja ráðaskrímslið í frystikistuna og aðeins taka það fram þegar það átti við.

  • Ég æfði mig að hlusta til að hlusta og gera ekkert annað á meðan.

  • Ég æfði mig í að gefa innsæinu rými og treysta því til að koma með spurningarnar og speglanir sem eiga við.


Þegar við hlustum til að skilja:

  • …sýnum við fólki virðingu. Þegar fólk upplifir að því sé sýnd virðing byggist traust upp hraðar. Traust er grundvöllur alls í samskiptum.

  • …verður til sameiginlegur skilningur miklu hraðar. Við náum árangri hraðar saman því við náum að útkljá misskilning miklu fyrr.

Með þessum æfingum mínum hefur mér farið mikið fram - en ráðaskrímslið og öri heilinn koma samt reglulega í heimsókn - ég er bara orðin betri í að sjá þegar þau mæta og meðvitað leggja þau til hliðar.


Hvað segir þú um að gera tilraun:

Næst þegar þú ferð inn í mikilvægt samtal - prófaðu að fylgjast með því sem gerist á meðan þú ert að hlusta. Skoðaðu niðurstöðuna eftir samtalið og þá getur þú metið hvort þú þurfir að setja upp hlustunar-æfingar-prógramm


Comments


bottom of page