Flest okkar vita að það er ekki allt satt sem við lesum á internetinu og erum í auknu mæli farin að lesa upplýsingar með gagnrýnni hugsun og vakandi auga fyrir falsfréttum. En hvað með hugsanirnar okkar? Trúir þú enn öllu sem þú hugsar?
Falsfréttir og falshugsanir eiga nefnilega margt sameiginlegt. Þó hugur okkar hlaupi sjaldnast af stað af illum ásetningi (eins og oft reynist í falsfréttum) þá er niðurstaðan oft sú sama: við trúum einhverju sem ekki er satt og það hefur afleiðingar. Og eins og oftast er með falsfréttir - þá eru falshugsanir sjaldnast jákvæðar og uppbyggjandi. Þvert á móti valda þær áhyggjum, draga úr orku og við upplifum meira streð í daglegum áskorunum.
Þessar pælingar mínar fjalla um hvernig "nokkurnveginn" heilbrigt fólk (þar á meðal ég sjálf, fjölskyldan mín, vinir og margir af mínum marksækjendum) getur byrjað að sjá og takast á við falshugsana-stríðið í hausnum á sér. Þeir sem glíma við kvíða, þunglyndi eða aðra sjúkdóma þurfa oft mun ríkari stuðning faglærðra á sinni vegferð.
En hvaðan koma falshugsanir?
Falshugsunum er hægt að skipta í tvo flokka; jórturhugsanir um fortíðina og áhyggjur af framtíðinni.
Jórturhugsanir
Jórturhugsanir um fortíðina eru oft sí-endurteknar hugsanir um að við hefðum átt að gera eitthvað öðruvísi í fortíðinni. Við rýnum aðstæður úr fortíðinni (fyrr í dag eða fyrir 30 árum) úr meiri fjarlægð og komumst að þeirri niðurstöðu að við höfum brugðist rangt við. Út frá þessu spinnast oft heilu samtölin/leikþættirnir í hausnum á okkur:
"Af hverju sagði ég þetta. Alltaf þarf ég að klúðra svona. Ef ég hefði bara sleppt því að tjá mig. Eða ég hefði líka getað sagt þetta svona frekar. Þá hefði ég ekki stuðað hana svona mikið. Eða ég hefði bara getað þóst skilja þetta. Þá hefði hún ekki haldið að ég sé hálfviti. Hún mun pottþétt ekki vilja fá mig í fleiri verkefni. Ég vildi að ég hefði bara þagað þá hefði þetta endað allt öðruvísi......"
Oft festumst við í jórtrinu og gagnsemi þess að jórtra aftur og aftur og aftur á einhverju sem við ekki fáum breytt (því við breytum ekki fortíðinni) er lítil.
Ef við erum aftur á móti tilbúin til að æfa okkur að vera meðvituð um hugsanamynstrið þá getum við stoppað vítahringinn með því að spyrja okkur:
Hvað er satt?
Hvað ætla ég að gera í þessu núna?
Hvaða lærdóm get ég dregið af þessu sem gæti styrkt mig inn í framtíðina?
Þarna gerist galdurinn! Við brjótum vítahringinn og tökum aftur stjórnina (færum okkur í innri hringurinn).
Áhyggjur
Áhyggjur af framtíðinni eru af sama meiði og jórturhugsanir- en tengjast einhverju sem ekki er orðið.
"Ég næ örugglega ekki að koma kynningunni í næstu viku vel frá mér. Þau munu pottþétt spyrja mig fullt af spurningum sem ég get ekki svarað. Þá mun ég líta út eins og hálfviti og þau missa trúna á mér. Svo er ég alltaf svo lengi að undirbúa þessar kynningar. Ætli þau mæti öll? Ohh ég vona ekki - en þau gera það örugglega - og búast örugglega við að ég geti sagt þeim að allt sé í góðu. Þau verða brjáluð þegar þau heyra að verkefninu mun seinka."
Kannast þú við þennan vítahring? Leiðin út úr honum er sú sama - að æfa sig í að sjá þessar hugsanir og eiga bjargráð til að stoppa vítahringinn.
Hvað er satt: "OK - vá ég finn að ég er stressuð fyrir kynningunni í næstu viku".
Hvað þarf ég þá að gera núna: "Ég ætla að taka stöðufund með teyminu og sjá hver raunstaðan er - svo ætla ég að heyra í einum af yfirmönnunum fyrir fundinn og fá hans ráðleggingar um hvernig best er að tækla þetta. Ég ætla svo að gefa mér smá tíma til að hugsa hvernig best er að koma þessu niður á kynningu."
Hver er lærdómurinn? Ég sé núna að ég verð alltaf svona stressuð fyrir þessar kynningar. Ég nenni þessu ekki lengur. Ég ætla að skoða hvort það eru einhver námskeið sem ég get skráð mig á til að auka sjálfstraustið í kynningum. Svo ætla ég líka að spyrja XX því hún er svo ótrúlega góð í þessu.
Sástu hvað gerðist þarna? Við fórum frá áhyggjunum í aðgerðir. Ef við festumst í áhyggjum um framtíðina og náum ekki að gera neitt í því þá er framtíðin jafnlítið á okkar valdi og fortíðin.
Það er nauðsynlegt að taka það fram að áhyggjur eru ekki slæmar. Þær hjálpa okkur að sjá fyrir hættur og forðast þær. En ef við lendum í áhyggju-vítahring þá þjóna áhyggjurnar engu gagni.
Þegar við stöldrum við - spyrjum hvað er satt - skoðum gögnin okkar og metum svo framhaldið þá erum við í raun að taka vísindalega nálgun á okkar eigin huga. Við erum að velja að taka af sjálfstýringu þegar hún þjónar okkur ekki. Sjálfstýringin á það nefnilega til (ítrekað) að festast í verstu og öfgafyllstu sviðsmyndinni. Við getum kallað þetta hamfarahugsun.
Hér er mjög mikilvægt að taka fram að líf "án" falshugsana þýðir ekki að við lærum ekki af fortíðinni og skipuleggjum ekki framtíðina.
Það að rýna fortíðina með uppbyggilegum hætti og draga lærdóm sem nýtist okkur er forsenda þess að við höldum áfram að þroskast og blómstra.
Það að undirbúa framtíðina með blöndu af forvarnarhugsun og þeirri vissu að allt er alltaf að breytast (og því fara plön alltaf úr skorðum) er lykillinn að velgengni okkar.
Það sem við æfum okkur aftur á móti að gera, er að taka eftir þegar jórtrið og áhyggjurnar koma - staldra við, skoða og finna leiðina áfram.
Hvernig lítur þetta út í alvörunni
Hér kemur vandræðalega sönn saga: Ég mæti illa fyrirkölluð í vinnuna og hreyti í samstarfskonu yfir hádegismatnum (algjörlega óverðskuldað af hennar hálfu).
Falshugsana leiðin: Kræst! Hvað gerði ég - nú er hún örugglega brjáluð við mig. Shit ég er búin að brjóta traustið við hana. Ég sem var farin að hlakka svo mikið til að vinna meira með henni. Hún mun örugglega segja öllum frá því sem ég hreytti í hana. Ég verð örugglega tekin á teppið. Af hverju gat ég ekki bara þagað. Af hverju þurfti ég að gera þetta? Af hverju gat ég ekki bara farið í göngutúr. Nú verður sjúklega vandræðalegt að hitta hana næst… og alla í hennar deild því hún verður búin að segja þeim öllum frá þessu. Hvernig gat ég verið svona vitlaus. Er ekki í lagi með mig. Af hverju hreytti ég í hana. Af hverju sagði ég þetta. … (endurtekið í ýmsum útgáfum 100x)
Önnur leið: Kræst! Hvað gerði ég! OK - þetta er búið og gert. Hvað ætla ég að gera í þessu núna: Biðja hana afsökunar. Úff það verður vandræðalegt. Hver er lærdómurinn: Æfa mig að vera meðvitaðir um pirringinn minn. Ahh ég sé líka núna hvaðan þessi pirringur kemur - hann tengist henni ekkert. Ég þarf að eiga annað samtal um hann við aðra manneskju….
Falshugsanaleiðin - Afleiðingar:
Öfgakenndar-falshugsana-dramatík heltekur orku mína og athygli í einhvern tíma. Hugsanirnar koma upp aftur og aftur þegar ég rekst á viðkomandi í vinnunni. Vandræðalegt að hitta viðkomandi. Eftir einhvern tíma gleymist þetta því nóg er af falshugsana-dramatíkinni til að taka við af þessari.
Hin leiðin - Afleiðingar:
Ég bið viðkomandi afsökunar. Hún segir: "Ekkert mál elsku Kristrún mín - ég sá að það var eitthvað að hrjá þig því þetta var svo ólíkt þér." Samband okkar styrkist því hún upplifir mig meira "mannlega" og ég upplifi á eigin skinni hennar umhyggjusemi og skilning.
Auðvitað er heimurinn ekki svona svart-hvítur og raunútgáfan af þessari sögu er blanda af báðum útgáfum. En ímyndaðu þér hvernig lífið þitt liti út ef þú gætir í ríkari mæli valið "hina leiðina". Hvað væri öðruvísi þá?
Ytri hringurinn
Hugsanirnar okkar sem tengjast ytri hringnum eru alls ekki allar falshugsanir. Þar er fullt af öðrum hugsunum sem eru sannar en við höfum lítið/ekkert um það að segja hvernig framvindan verður. Þegar falsfréttunum fækkar er auðveldara að horfa á aðrar hugsanir í ytri hringnum og velja markvissara hverjar þeirra fá okkar tíma og orku.
Mín vegferð
Fyrir 8 árum gekk ég í gegnum erfitt tímabil þegar við hjónin vorum að reyna að búa til yngra barnið okkar. Níu glasafrjóvganir sem ekki gengu upp tóku verulega á mig andlega. Sagan okkar endaði samt vel því þetta gekk upp í 10. tilraun 🧡
Ég fann að mig vantaði ró í hugann. Ég hafði lesið ógrynni af bókum og greinum um núvitund og fannst ég nokkuð góð í þessu en var mögulega að átta mig á að ég yrði að stunda núvitundina til að finna áhrifin (ekki bara læra um hana með rökheilanum 😅) Ég skráði mig á 8 vikna núvitundarnámskeið til að koma mér af stað. Í fyrsta tímanum spyr kennarinn:
" Trúið þið hugsunum ykkar?"
Á þessu andartaki gerist eitthvað. Ég upplifið nístandi sársauka í hjartanu og svo helltist yfir mig reiði. Ég varð brjáluð! Hvernig get ég setið hérna 35 ára gömul og ENGINN hefur sagt mér þetta fyrr! Ég hugsaði til unglings-Kristrúnar sem gekk í gegnum skelfilegt tímabil þar sem ég var ákveðin í að verða endurskoðandi - ekki af því stærðfræði og allar raungreinar léku í höndunum á henni, ekki af því að hún átti auðvelt með að sjá mynstur og greina frávik… nei ástæðan var sú að endurskoðendur voru eina starfsstéttin sem hún gat ímyndað mér sem ALDREI þurfti að tala við fólk! Ég bið alla endurskoðendur innilegrar afsökunar á þessum fordómum sem unglingsútgáfan af mér var haldin. Þið getið kannski gert ykkur í hugarlund hvað er í gangi í hausunum á unglingsstelpu sem í grunninn var mjög félagslynd, forvitin og skapandi sem varð til þess að þetta var hennar eina framtíðarsýn.
Frá þessum tímapunkti breyttist allt. Ekki allt í einu - heldur í stórum og litlum skrefum yfir mörg ár.
Í dag hugleiði ég daglega - en dett stundum úr takti. Í dag er oftast rólegur vindur í hausnum á mér - en ekki alltaf. Í dag tek ég oftast fljótt eftir því ef stormur er í aðsigi og á mín bjargráð til að vinna úr honum - en ekki alltaf. Í dag hef ég næði til að hlusta á innsæið mitt og ró til að vera með fólkinu mínu í núinu - ekki samt alla daga.
Það er ekkert auðvelt við þessa vegferð. Hún ýtti óþægilega við mér þegar ég fór að sjá eitthvað sem áður hefur verið hulið og á leiðinni þurfti ég oft að leita í hugrekkið í mér til að takast á við þau mynstur sem urðu mér ljós. En á þessari vegferð kviknaði líka ástríðan mín fyrir því að hjálpa fólki að blómstra og vissan að þarna lægi mín leið til að breyta heiminum.
Munurinn á mér fyrir og eftir er gríðarlegur - þ.e. frá mínu sjónarhorni. En það áhugaverða er að utanfrá sést ekki svo mikill munur. Við mannfólkið erum nefnilega snillingar í að bera okkur vel og ströggla í hljóði.
Langar þig að prófa?
Ef það sem kemur fram hér að ofan hreyfir við þér og þig langar til að prófa þig áfram þá eru hérna nokkur skref til að byrja á. En þar sem ég er með ofsafengna uppskriftafælni þá mæli ég með að þú finnir fljótlega út hvað hentar þér og hvað ekki og nýtir þér þann lærdóm á þinni vegferð.
Meðvitund - Ég veit að hluti af því sem ég hugsa er ekki satt.
Þegar upp kemur grunur um falshugsun:
Er þetta satt?
Get ég vitað hvað aðrir hugsa?
Má ég vera mannleg/ur?
Aðgerð:
Hvað ætla ég að gera í þessu núna? … og svarið má vera "ekkert"
Lærdómur:
Hvaða lærdóm get ég dregið um sjálfa mig af þessu?
Hvað/hver gæti stutt mig enn betur næst þegar þetta gerist?
Þakklæti:
"Takk Ég fyrir að taka eftir þessum falshugsunum og forða mér frá þessum orku-tíma-gleypi"
Það getur einnig verið mjög dýrmætt að taka rýni á sinn lærdóm yfir lengra tímabil. Í þessari rýni er gott að nota 3 einfaldar spurningar:
Hvað hefur gengið vel hjá mér síðustu misseri varðandi að sjá mínar falshugsanir og bregðast við þeim?
Hvað hefur gengið illa?
Hvað ætla ég að gera öðruvísi í framhaldinu?
Slæmu fréttirnar: Falshugsanir hætta aldrei að koma
Góðu fréttirnar: Það sem gerist þegar við æfum okkur að sjá þær og takast á við þær, er að bæði koma þær sjaldnar og við áttum okkur fyrr á því að þetta eru falshugsanir. Því fer minni orka og tími í þennan óþarfa og meiri orka og tími í það sem gleður okkur og nærir. Ímyndaðu þér hvað þú gætir gert tímann og orkuna sem sparast - hvað kemur fyrst upp í hugann?
Ég á mér draum. Mig langar svo að fleiri og fleiri og fleiri upplifi frelsið, léttinn og gleðina sem því fylgir að losna úr hlekkjum falshugsana sinna - því ég trúi því að það sé þarna sem við byrjum að breyta heiminum 🧡
LUV
Kristrún
Σχόλια