top of page
Search

Hvað er eiginlega markþjálfun?

Þegar ég mætti á fyrsta daginn í markþjálfunarnáminu mínu hélt ég að ég vissi nokkuð vel hvað markþjálfun væri. Ég hafði í fyrra námi kynnst markþjálfun aðeins og nýtt mér aðferðir úr markþjálfun í mínum störfum með teymum og stjórnendum. Á fyrsta klukkutímanum í náminu áttaði ég mig á því að ég vissi næstum ekki neitt. Nei þetta eru ýkjur, kannski miklu frekar að allur skilningur minn á markþjálfun hafði hingaðtil átt sér stað í gegnum rökheilann.

Í náminu fáum við tækifæri til að sjá nokkra af bestu markþjálfum landsins markþjálfa. Það sem þeir gera hefur vissulega margt að gera með rökhugsun - en þar spilar svo margt annað inn í sem nær svo miklu dýpra og hreyfir við marksækjandanum á svo djúpstæðan hátt.

Það sem kom fyrst upp í huga mér var “þetta er list” - mér fannst eins og ég væri að horfa á dans sem væri spunninn á staðnum. Þessi dans hreyfið svo við mér að ég fylltist þeirri tilfinningu að ég væri komin heim <3


Í bókinni “Markþjálfun - vilji , vit og vissa” eftir Matildu Gregersdotter, Arnór Már Másson og Hauk Ingi Jónasson er farið yfir uppruna, tilgang og aðferðir markþjálfunar. Ég ætla að gefa þeim orðið:

Markþjálfun - vilji, vit og vissa
"Markþjálfun (e. coaching) er aðferð sem er notuð til þess að hjálpa fólki að ná meiri árangri í eigin lífi. Það er aðferð sem miðar að því að hjálpa fólki að finna sinn innri styrk og stytta leið að ákveðnu markmiði, hvort sem það er persónulegur vöxtur, aukin lífsgæði, bætt starfsumhverfi eða til þess að ná betri árangri og frammistöðu í eigin lífi. Markþjálfun getur ögrað persónulegum viðhorfum, hjálpað fólki að ná auknum þroska með því að stíga út fyrir þægindarammann og vakið upp margskonar tilfinningar. Stundum getur hún leitt til sársaukafullra breytinga. Markþjálfun getur verið mjög krefjandi og framandi en þegar mesta vinnan er búin uppskera flestir gleði, aukna orku og meiri áhuga á ýmsu sem áður var ekki til staðar.
Í markþjálfun eru notaðar spurningar, virk hlustun, stuðningur og hvatning, það hjálpar viðskiptavininum að finna aðferðir sem hjálpa honum að ná markmiðum sínum. Vitund eflist og kemur viðskiptavinur sjálfur með lausnir. Það má því segja að markþjálfun sé ákveðin leið til þess að ná fram því besta í hverjum og einum, hvort sem það er í einkalífi eða á faglegum vettvangi.
Tímabil markþjálfunar geta verið mislöng og fjöldi samtala markþjálfa og viðskiptavinar er mjög misjafn. Metnaður viðskiptavinar hefur þar mikið að segja og það er undir honum komið hversu vel og mikið hann vill nýta hvern tíma. Tímabilið getur því verið allt frá einu eða tveimur skiptum yfir í að vera nokkrar vikur, mánuði, jafnvel ár eða lengur. Hvert samtal getur verið frá 15 mínútum allt uppí tveggja klukkustunda samtal, allt eftir því hversu djúpt á að fara í málin. Stefnt er að því að viðskiptavinurinn læri að nýta vinnuna sem skilvirkt verkfæri á sjálfstæðan hátt.
Viðfangsefnin eru margskonar og eru ákveðin af viðskiptavininum sjálfum með aðstoð í formi hvatningar frá markþjálfanum. Einblínt er á nútíð og framtíð og í stað þess að horfa til baka og vinna með hindranir eða vandamál er horft á stöðuna eins og hún er í dag og hvaða möguleika er að sjá í framtíðinni. Hindrun eða truflun úr fortíð sem ekki er þess eðlis að hún þarfnist sérhæfðar meðhöndlunar hjá meðferðaraðila hverfur oft þegar áhersla er lögð á að horfa fram á veginn og sjá möguleikana sem felast þar og styrkur viðkomandi virkjaður. Í markþjálfun er áhersla lögð á vonir einstaklingsins, vilja hans og möguleika. Ef allt gengur eins og ætlast er til þá má vekja áhuga, ástríðu, ábyrgð, sjálfstæði og gleði hjá viðskiptavininum. Skýrari sýn og aukið traust til athafna bætir frammistöðu og árangur í hverju sem er. Markþjálfar upplifa iðulega vöxt hjá viðskiptavinum sínum. Það er á margan hátt einstakt og áhugavert að sjá hvernig góður markþjálfi getur með markvissum spurningum og aðhaldi laðað fram getu viðskiptavinarins án þess að veita ráð eða koma sínum skoðunum að.

Við eigum okkur öll eitthvað sem okkur langar að ná betri tökum á eða breyta í okkar lífi. Ég hvet þig til að prófa og sjá hvort markþjálfun gæti stutt þig í að verða besta útgáfan af þér.


Njóttu dagsins,

Kristrún


Commentaires


bottom of page