top of page
Search

Teymisþjálfun - hvað er það eiginlega?

Teymisþjálfun er álíka óskýrt hugtak fyrir mörgum og markþjálfun var fyrir 20 árum. Mér finnst það ekkert skrýtið því mér reynist oft erfitt að útskýra þetta í stuttu máli sjálf …. Og ég vinn við þetta! Og ég er líka ógeðslega góð í að gera flókna hluti einfalda! Hvað er málið eiginlega?

Í sinni allra einföldustu mynd er teymisþjálfun leið til að efla teymi í átt að meiri árangri og meiri gleði. Hver vill það ekki? Ná geggjuðum árangri með gleðina og einfaldleikann að vopni!

En teymisþjálfun gerist ekki í tómarúmi. Umhverfi teyma, áskoranir teyma og verkefni teyma eru hluti af jöfnunni. Því án samhengis er fátt sem „meikar sens“.

Það að þjálfa teymi er ekki bara gert „afþvíbara“ eða til þess að „allir geti orðið svo góðir vinir“. Það er gert af því að þarna er falinn fjársjóður sem er „Win-Win“ fyrir alla!

  • Fólkið í teyminu fer út fyrir þægindarammann, skorar á sjálfan sig, lærir af mistökum, styður aðra, tekur erfiðu samtölin, gleðst yfir sigrum saman og tekst á við áskoranir saman og vex þannig og dafnar.

  • Fyrirtækið/stjórnendur fá margfalt meiri/öðruvísi/hraðari árangur og starfsfólk/teymi með eldmóð og þrautseigju til að takast á við ófyrirsjáanleika umhverfisins í dag.

Þegar ég þjálfa teymi nota ég oft til stuðnings módel sem kom út úr stórri rannsókn teymum Google. Þar eru settar fram fimm stoðir afburðateyma.

Fyrsta undirstaða afburðateyma, er að í þeim ríki tilfinningalegt öryggi (Psychological Safety). Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér teymi þekkja örugglega þetta hugtak. Í grunninn er þetta tilfinningin „I am safe – I belong“ sem leitast er eftir að fólk í teyminu upplifi. Fyrir sumum kann þetta að hljóma sem algjör óþarfi - en þarna liggur grunnurinn að grjótharða „stöffinu“. Skoðum þetta aðeins nánar.

Ef ég (sem teymismeðlimur) þori EKKI að:

  • …viðurkenna mistök > koma þau oft margfalt í bakið á teyminu seinna meir

  • …biðja um hjálp > er ég miklu lengur að finna út úr því sem ég á að skila af mér

  • …spyrja spurninga > er oft hlaupið af stað og áskoranir/hindranir sem auðvelt hefði verið að forðast úr fjarlægð, reynast risavaxnar þegar að þeim er komið

  • …vera ósammála > fá hugmyndir ekki að gerjast og tækifæri til að storka „status quo“ koma ekki upp á yfirborðið

  • …taka áhættu > verður útkoma verkefnisins eftir því > fyrirsjáanleg

  • …gæta þess að raddir allra heyrist > verða engir regnbogar til (það þarf bæði sól og ský til að bú til regnboga)

  • …deila mínum sigrum og mistökum > verður lærdómskúrfa teymisins afar hæg – og tímalína verkefnisins eftir því

Stoðir 2-5 í teymismódeli Google eru áreiðanleiki, skipulag & skýrleiki, tilgangur og áhrif. Þetta eru allt þættir sem færri eru meðvitaðir um að séu lykilþættir í árangursríkum teymum. Þessir þættir skipta sköpum – þó enginn þeirra sem eins mikilvægur og tilfinningalega öryggið.

Langar þig að máta þessa hugmyndafræði við þín teymi? Ég mæli alltaf með því að byrja smátt, draga lærdóm, meta árangur og ákveða svo hvað skal gera í framhaldinu.

Comments


bottom of page