Á þessum dimmasta degi ársins er svo gott að minna okkur á að við höfum val (...ef við veljum að hafa val). Valið byrjar svo oft á því að velja að setja orku og athygli á það sem við höfum stjórn á. Þegar lífið býður upp á ólgusjó - eins og það gerir hjá svo mörgum núna þegar náttúruöflin minna á sig í miðjum heimsfaraldri - er það sem við höfum stjórn á bara agnarsmár hluti af öllu sem á gengur. Valið stendur stundum bara um að taka einn meðvitaðan andardrátt og þannig gefa okkur örlitla hvíld frá áhyggjum.
Æfingin felst í því að spyrja okkur sjálf “Hvað get ÉG gert NÚNA sem hjálpar?” Með þessu hjálpum við huganum sem festist svo oft í jórturhugsunum um fortíðina eða í áhyggjum af framtíðinni.
Galdurinn felst í því að sjá að við getum ekki stöðvað öldurnar - en við getum lært að “sörfa” (Jon Kabat-Zin). Það er nefnilega svo lýjandi að slást við öldurnar. Þegar við festumst með orkuna okkar og athygli á því sem við ekki stjórnum missum við oft smám saman vonina. Vonin er okkur svo mikilvæg á erfiðum tímum - þó það sé bara agnarlítil vonarglæta - svona eins og vissan að á morgun mun daginn byrja að lengja - bara um nokkrar sekúndur - en þessar sekúndur skipta máli.
Það magnaða er nefnilega að það sem við veitum athygli vex - þannig að valið okkar skiptir alltaf máli
Comments