top of page
Search

Hugleiðslur & hugleiðsluöpp

Ég stunda hugleiðslur daglega. Þær eru mögulega það sem hefur breytt lífi mínu hvað mest. Hugleiðsla gengur nefnilega ekki út á að hugleiða eða að verða betri í að hugleiða heldur hefur hún verið lykilinn minn að innihalds- og kærleiksríkara lífi. Hugleiðslurnar færa mér andrými þannig að ég get meðvitað valið hvar ég nýti orkuna mína - þarna fóru mínir töfrar að gerast.

Ólíkt því sem margir halda þá hafa hugleiðslur hafa ekkert með það að gera að sitja með krosslagðar fætur og streða við að hugsa ekki neitt. Hugleiðslur æfa okkur í að vera meðvituð um hugsanir okkar og líðan. Af hverju skiptir það máli? Þegar við erum ekki meðvituð um hugsanir og líðan festumst við oft í lengri eða skemmri tíma í jórturhugsunum um fortíðna eða áhyggjum af framtíðinni. Þegar orkan okkar fer að stóru leiti í fortíðina eða framtíðina verður okkur mjög lítið úr verki í núinu. Og núið - þessi stund akkúrat núna - er eina stundin sem við höfum til að gera eitthvað - því við breytum ekki fortíðinni og eins mikið og okkur langar þá höfum við litla stjórn á framtíðinni.


Ef ykkur langar að skilja þetta aðeins betur með rökheilanum þá er hér mjög áhugaverð grein á íslensku um hvað rannsóknir hafa sýnt um áhrif hugleiðslu (skrollið niður greinina til að sjá hversu fjölþætt áhrifin eru).

Fyrir þá sem hafa áhuga á að #prófa þá er aragrúi af öppum og vefsíðum sem bjóða upp á hugleiðslur og auðvelt að villast í þeim frumskógi og gefast upp. Það sem skiptir máli er að prufa og finna það app/vefsíðu sem hentar hverjum og einum því það eru til svo ótal margar tegundir og nálganir á hugleiðslu. Hér að neðan er listi yfir nokkur hugleiðsluöpp. Efst eru þau sem til eru á íslensku og svo þau sem eru á ensku. Ef þið þekkið fleiri öpp sem hafa gefið góða raun megið þið endilega senda mér línu og ég bæti þeim við.


HappApp – ÍSL

HappApp er smáforrit sem inniheldur einfaldar æfingar sem stuða að aukinni hamingju og andlegri vellíðan. Landlæknisembættið kemur að útgáfu þessa apps sem gefur því ákveðinn gæðastimipil. Allt efni í appinu er frítt.

Lotusapp – ÍSL

Hugleiðslurnar geta hentað byrjendum jafnt sem lengra komnum. Þær eru sprottnar úr hugmyndafræði Raja Yoga sem hefur það að markmiði að auka sjálfsþekkingu og draga þannig fram það besta í einstaklingnum. Allt efni í appinu er frítt.

Kyrrðarjóga – ÍSL

Hornsteinar Kyrrðarjóga eru hugleiðsla, djúpslökun, öndunaræfingar og tónheilun. Allt efni á vefsíðunni er frítt.

· Vefútgáfa / (app í smíðum)

Headspace – EN

Skemmtilega myndrænt og vel framsett app með hugleiðslum og myndböndum sem útskýra hugleiðslur á dásamlega einfaldan hátt. Eftir að þið hafið skoðað fríu hugleiðslurnar í appinu er vel þess virði að kaupa mánuð til að skoða hvort hvað fleira er í boði. Appið er frítt (hluti efnis) en hægt að kaupa aðgang að öllu efni: 1 mánuður: $12 / 1 ár: $85

Insight Timer - EN (og nokkrar á ÍSL)

Insight Timer er vettvangur (eins og Spotify) fyrir þá sem eru að búa til hugleiðsluefni til að koma því á framfæri. Þarna er því ótrúlegt úrval af efni frá ólíkum aðilum. Þetta er því frábært app til að prufa fjölbreyttar hugleiðslur. Þessa mánuðina er þetta mitt uppáhalds-app. Appið er frítt (hluti efnis) en hægt að kaupa aðgang að öllu efni: 1 mánuður: $10 / 1 ár: $60

10% Happier - EN

Þetta app er hannað fyrir þá sem hafa miklar efasemdir um gagnsemi hugleiðslu. Yndislega skemmtilega kaldhæðin nálgun á hugleiðslu þar sem niðurstöður klínískra rannsókna eru fléttaðar inn. Þarna fær rökheilinn það sem hann þarf til að trúa á vegferðina. Appið er frítt (hluti efnis) en hægt að kaupa aðgang að öllu efni: 1 ár: $90

Calm – EN

Vinsælt hugleiðsluapp með fjölbreyttum hugleiðslum og „svefnsögum“ sem leiða mann inn í ljúfa drauma. Tengin við Apple-úr (öndunaræfingar og gönguhugleiðslur). Appið er frítt (hluti efnis) en hægt að kaupa aðgang að öllu efni: 1 mánuður: $12 / 1 ár: $43



bottom of page